Gunnar  Gunnarsson

Gunnar Gunnarsson

b. 1961

Gunnar Gunnarsson Norðfjörð (1961) hóf tónlistarnám á Akureyri og lauk kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1988 ásamt lokaprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík ári síðar. Gunnar stundaði rannsóknir á íslenskum sálmum bæði í Kaupmannahöfn og hér heima og birti niðurstöður í ritgerð sem gefin var út 1993 og nefndist Weyse-handritin og Choralbog for  Island. Þar er fjallað um tilurð fyrstu sálmasöngsbókar Íslendinga og þau handrit sem hún byggir á.
 
Gunnar hefur getið sér gott orð fyrir fjölbreytilegan tónlistarflutning og víða komið fram á tónleikum innan lands og utan. Auk hefðbundinna starfa sem organisti og kórstjóri hefur hann lagt sig eftir að útsetja og flytja trúarlega tónlist með óhefðbundnum hætti. Einnig hefur hann leikið á píanó með mörgum þekktum tónlistarmönnum og átt þátt í útsetningum og hljóðritunum bæði djasstónlistar og þjóðlegrar tónlistar. Á undanförnum árum hefur Gunnar í auknum mæli útsett tónlist fyrir kóra og sönghópa og hafa útsetningar hans á kirkjutónlist m.a. komið út hjá Skálholtsútgáfunni og einnig gaf á Kór Akraneskirkju út disk með útsetningum hans 2010. Gunnar útsetti fyrir kór 16 sönglög eftir Tómas R. Einarsson og voru þau frumflutt ásamt Sigríði Thorlacius og Sönghópi Fríkirkjunnar og hljómsveit á Jazzhátíð Reykjavíkur 2014. Lögin voru jafnframt gefin út á hljómdisknum Mannabörnum sama ár. Gunnar hefur töluvert útsett fyrir píanó og má þar nefna tónlist eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson (Krúsilíus og fleiri barnalög), Tómas R. Einarsson (Djassbiblía Tómasar R), Heimi Sindrason (Hótel Jörð – Söngbók Heimis Sindrasonar) og Íslensk ástar- og brúðkaupslög sem komu út á vegum Félags tónskálda og textahöfunda. Árið 2024 kom út á vegum Skálholtsútgáfunnar nótnabókin Upp, upp, mín sál sem inniheldur 94 sálmaútsetningar fyrir blandaða kóra.

Helstu hljóðritanir og samvinnuverkefni eru VON OG VÍSA ásamt Önnu Pálínu Árnadóttur (1994), FAÐMUR (2005) ásamt Kirstínu Ernu Blöndal og hljómsveit, GAMANVÍSUR (2009) ásamt Níelsi Árna Lund og Gunnari Hrafnssyni og TUNGLIÐ OG ÉG (2023) ásamt Heiðu Árnadóttur.
Gunnar hefur gefið út sjö diska í eigin nafni, SKÁLM (1996), STEF (1998), DES (2003), HÚM (2005), HRÍM (2008) og GNÓTT (2010) og sálmadiskinn 525 (2014).

Gunnar hefur auk þess gefið út fimm diska ásamt Sigurði Flosasyni, Sálma lífsins (2000), Sálma jólanna (2001), Draumalandið (2004) og Sálma tímans (2010) og safndiskinn Icelandic Hymns (2013).
Gunnar starfaði sem organisti og kórstjóri við Laugarneskirkju í Reykjavík um árabil en er nú organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík. Gunnar lauk meistaraprófi í almennum málvísindum frá Háskóla Íslands 2015.

Heimild: https://kirkjulistahatid.is/gunnar-gunnarsson/

Tekið af Ísmúsvefnum